144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

ummæli forsætisráðherra um rammaáætlun.

[12:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög áhugavert vegna þess að það sem við sjáum hérna eru samningaviðræður milli stjórnarflokkanna. Við sjáum þær hér fyrir opnum tjöldum og það ekki í fyrsta sinn. Ég bið virðulegan forseta með mér að lygna aftur augunum og hugsa til þess þegar Framsóknarflokkurinn lýsti því yfir að hann mundi aldrei standa með hækkun matarskatts og þá var talan 12% í frumvarpi fjármálaráðherra. Hvað gerðist svo? Það vannst stórkostlegur sigur af hálfu framsóknarmanna og talan varð 11%. Sama aðferðafræði á sér stað hér, virkjunarkostunum er fækkað um einn og forsætisráðherrann sjálfur er svo ánægður með áfanga Framsóknarflokksins að hann kemur hingað og ber sér á brjóst. Þetta eru hin íslensku stjórnvöld í dag. Þetta er ástandið á Íslandi, það eru samningaviðræður milli stjórnarflokkanna um stórt og smátt og lítilþægni Framsóknarflokksins í einu og öllu.