144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[13:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst eins og hæstv. ráðherra léti að því liggja að Hagavatn hefði verið flutt úr nýtingarflokki í biðflokk. Svo er ekki og ég vona að mér hafi misheyrst og hún standi ekki í þeirri trú að svo hafi verið, en hún gaf það hér í skyn.

Ég ætla að fá að vitna í umrætt áliti frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Verkefnisstjórnin hefur ekki skilað tillögu um flokkun þessara kosta til ráðherra og þingsályktunartillagan sem nú liggur fyrir Alþingi tekur ekki til þeirra kosta. Það er því mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að lög nr. 48/2011 geri ekki ráð fyrir að Alþingi geti gert breytingar á flokkun þessara kosta þar sem lögbundið ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar hefur ekki farið fram hvað þá varðar.“

Það er ráðuneyti hæstv. ráðherra sem segir þetta beinlínis um Skrokköldu og Hagavatn. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún sé þá hér með að taka ákvörðun um að hunsa lögfræðilegt álit sérfræðinganna í ráðuneyti sínu vegna þess (Forseti hringir.) að það er gert með því að halda þessum tillögum til streitu.