144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[14:04]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst fyrirgefningar á þeim orðum sem ég mun láta falla hér, ég gat ekki skilið þessa ræðu hv. þingmanns [Kliður í þingsal.] vegna þess að forseti Alþingis er búinn að úrskurða að það sem kom frá atvinnuveganefnd sé þingtækt. Hér liggur fyrir úrskurður og við erum með málið til þinglegrar meðferðar. Það hefur ekkert að segja hvort ég styð fólkið mitt í ráðuneytinu eður ei. (Gripið fram í.)

Ég vitna aftur, með leyfi forseta, í úrskurð forseta þingsins:

„Þegar það er skoðað í heild sinni sem hér hefur verið rakið sýnast rök hníga frekar í þá átt að til grundvallar umræddum virkjunarkostum liggi þegar fyrir faglegt mat á þeim málefnalegu sjónarmiðum sem byggja ber verndar- og orkunýtingaráætlun á. (Forseti hringir.) Samkvæmt þessu eiga lög um verndar- og orkunýtingaráætlun ekki að leiða til þess að vísa beri breytingartillögunni frá.“