144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[14:08]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Spurning mín fjallaði ekki um hvort tillagan væri þingtæk eða ekki heldur spurði ég hæstv. ráðherra hvað hún hefði viljað gera við nýjar upplýsingar sem komu úr umsagnarferli áður en síðasta þingsályktun var samþykkt um rammaáætlun. Þeirri spurningu svaraði hæstv. ráðherra ekki.

Hæstv. ráðherra vill ekki láta tala niður verkefnisstjórnir, hvorki þá fyrri né þá nýju, og það var ég heldur ekki að gera. Það er hins vegar hæstv. ráðherra sem vill ekki taka mark á núverandi verkefnisstjórn og þess vegna hljótum við í þessum sal að spyrja: Hvað með næstu niðurstöðu sem þessi verkefnisstjórn kemur með? Mun hæstv. ráðherra hlusta þá? Af hverju heldur hæstv. ráðherra að umfjöllun stjórnmálamanna sé betur til þess fallin (Forseti hringir.) að koma á sátt og friði í þessum stóra og mikla málaflokki en niðurstaða núverandi verkefnisstjórnar?