144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[14:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem varpaði ljósi á hans forsendur og bakgrunn að því er varðar skilninginn á rammaáætlun og þeim verkferlum sem eru undir.

Í tillögu til þingsályktunar, sem hv. atvinnuveganefnd er í raun að gera breytingar við, kemur fram að ekki hafi verið dregið nægilega úr óvissu hvað varðar Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun og þess vegna hafi verkefnisstjórnin ekki talið rétt að gera tillögu um það. Í máli hv. þingmanns kemur ítrekað fram að hann telji meiri hluta atvinnuveganefndar til þess bæran að taka ákvarðanir og jafnvel að meta umhverfisáhrif á einstökum svæðum eins og í kringum Skrokköldu, sem kom fram í mati hans á því svæði, og betur til þess bæran en verkefnisstjórnina sjálfa. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann hvort það sé rétt skilið hjá mér að hann (Forseti hringir.) telji meiri hluta atvinnuveganefndar vera í þessari stöðu að setja verkefnisstjórn rammaáætlunar 3 til hliðar.