144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[14:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er raunalegt, þegar við erum búin að samþykkja hér í þingsal að við ætlum að fara að hlusta meira á fagfólk, að horfa á þessa tillögu meiri hlutans í atvinnuveganefnd og lesa svo um það í fjölmiðlum að innlegg hæstv. fjármálaráðherra, formanns Sjálfstæðisflokksins, í þessa umræðu hér á þingi sé að breyta þingsköpum og stytta ræðutíma, fólk sé farið að tala allt of mikið á Alþingi. Þetta sé svo þreytandi. Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra verður seint sakaður um að vera diplómati af guðs náð eins og sjá mátti á innleggi hans á fésbókarsíðu sinni 1. maí þegar hann sendi launþegum í landinu kaldar kveðjur. En þetta er sem sagt innlegg hans í þessa umræðu þegar einmitt er ástæða til að staldra við og velta því fyrir sér hvort við séum að hlusta á fagfólk, hvort við séum að kynna okkur gögn málsins. Þá segir hæstv. fjármálaráðherra: Fólk verður bara að hætta að tala hér á þinginu, það verður að stytta ræðutímann. Þetta er það sem er að Alþingi, segir hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er ástæðan fyrir vantraustinu á Alþingi. Ég held að það sé ekki rétt hjá honum. Ég held að ástæðan sé sú að ekki er verið að byggja ákvarðanir hér á traustum grunni.