144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[14:59]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Já, það er eiginlega svolítið skondið að sjá þetta innlegg hæstv. fjármálaráðherra. Utanríkisráðherra syngur bara í útlöndum, „We are the World“, og hefur gaman af, það er líklega innlegg hans í kjarabaráttuna hér á landi. Og hinn ráðherrann vill bara að við hættum að tala. Þetta er ekki mjög traustvekjandi.

Þetta er á sama tíma og verkefnisstjórn nr. þrjú, sem hér er að störfum, er tekin niður í verkefnum sínum, ekki bara af hálfu meiri hluta atvinnuveganefndar heldur einnig af hálfu hæstv. umhverfisráðherra. Hún gat ekki svarað því hér áðan þegar hv. þm. Oddný G. Harðardóttir spurði hana hvað hún hefði gert við nýjar upplýsingar sem bárust í umsagnarferli. Því gat hún ekki svarað og því er ósvarað enn. Hæstv. umhverfisráðherra getur ekki staðið með þeirri tillögu sem hér er lögð fram. Hverjum hún er að reyna að mæta með því að bera þetta fram á ríkisstjórnarfundi í morgun, með þeim hætti sem gert er, er mér alveg óskiljanlegt nema það sé frekjuköllunum í Sjálfstæðisflokknum.