144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:03]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ábendingarnar varðandi bjölluna, ég hef orðið nokkra reynslu af því að nema bjölluhljóminn hérna í hnakkann á mér og verð nú að segja eins og er að það er dálítill munur á milli forseta í þessum efnum. Sumir forsetar eru býsna drjúgir í því að banka bara laust í bjölluna og það virkar alveg eins á þann sem talar eins og sá gífurlegi sláttur sem aðrir viðhafa, þannig að það sé sagt.

Ég vil segja það að þegar við erum stödd í þessari umræðu þá liggur það algerlega fyrir að ef halda á áfram umræðu um rammaáætlun verður hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra að vera í salnum. Við kölluðum ítrekað eftir því í gær og hún kom hingað og drap niður fæti í 2–4 mínútur í senn og var alltaf farin fram aftur. Við erum að tala um það að óska eftir einhvers konar rökræðu. Hæstv. forsætisráðherra kallar eftir rökræðu en gerir ekkert annað en henda inn sprengju og ganga á dyr. Hæstv. fjármálaráðherra talar um vanda þingsins. Hver er vandi þingsins? Það er að við tölum of mikið og það þurfi að þrengja að okkur. Staðan er því orðin mjög alvarleg.