144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Nú höfum við hér eftir hádegið hlustað á tvær ræður um þetta mál, þetta erfiða og vonda mál. Það er verið að taka úr sambandi, ef svo má orða það, feril sem menn ætluðu að fara eftir til þess einmitt að það gerðist ekki sem er að gerast hér í dag. Og hvað gerist? Hér koma tveir ræðumenn — annar þeirra er hæstv. umhverfisráðherra, hún sjálf, og svo er það hv. þm. Páll Jóhann Pálsson, sem er fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni sem fjallar um málið — og ég verð bara enn ruglaðri en ég var áður eftir að hafa hlustað á þessa tvo ágætu þingmenn og ráðherra. Mér heyrist það helst vera þannig að fólkið viti nákvæmlega ekkert hvað verið er að tala um. Ég held að það sé nauðsynlegt að taka þetta mál af dagskrá og koma með tillöguna eins og hún var í upphafi um eina virkjun, Hvammsvirkjun.