144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:18]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að taka undir með þeim sem hafa talað um þetta samráðsleysi. Og þegar hæstv. forsætisráðherra taldi sig í morgun vera búinn að ná sátt þá var það væntanlega, eins og síðar kom fram, milli umhverfisráðherra og meiri hluta atvinnuveganefndar. Ég vissi ekki að ná þyrfti einhverri sérstakri sátt þar. Ég held að menn hafi alveg gert sér grein fyrir því að það gæti eitthvað breyst, en sáttin hlýtur að vera fólgin í því að ræða við stjórnarandstöðuna en ekki eingöngu við sjálfan sig.

Þegar við vitnum til hinnar góðu stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem talað er um að samfélag sé samvinnuverkefni, ég er sammála því, þá er ríkisstjórnin ekki að iðka það og hún er ekki að leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar, það er alveg ljóst, og hún er ekki að vinna að því að Ísland verði í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu, það er alveg ljóst með þeim aðgerðum sem hér eru lagðar til.