144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:19]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að segja að ég kann ekki að meta vandlætingu hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar á þeim ábendingum sem hér koma fram undir réttum lið, um fundarstjórn forseta, því að þar eiga að koma fram mikilvægar ábendingar um þetta mál sem þarfnast skoðunar og við biðlum til forseta að taka til greina.

Málavextir eru svona: Meiri hluti avinnuveganefndar leggur fram breytingartillögu sem á sér ekki stoð í lögum og tekur að sér verkefni sem nefndinni hefur ekki verið úthlutað, þ.e. að vinna sem einhver angi af verkefnisstjórn rammaáætlunar. Það gengur ekki upp. Það er ekki það hlutverk sem við sinnum, það eru aðrir sem sinna því. Við þetta gerum við athugasemdir og við viljum stöðva málið. Svo bíða önnur mál og við viljum gjarnan vinna að á meðan verkefnisstjórn rammaáætlunar finnur út úr því (Forseti hringir.) hvort virkjunarkostir eigi að fara í verndar- eða nýtingarflokk.