144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að ræða áfram virðingu Alþingis og hugmynd hæstv. fjármálaráðherra um að mál fái ákveðinn takmarkaðan tíma til umræðu og völd forseta til að stjórna þingstörfum verði aukin. Það má benda á að forsetinn er með alvald yfir dagskránni. Það er eitt af vandamálunum og þegar maður er með slík vandamál á maður ekki að auka það heldur þvert á móti að draga úr því. Hvergi kemur fram í þessari frétt að hæstv. fjármálaráðherra hafi dottið í hug að auka hugsanlega samráð um dagskrána.

Er það ekki svolítið kjánalegt, svo ég noti ekki sterkara orð, að Alþingi Íslendinga, löggjafarvaldið, komi sér ekki einu sinni saman um dagskrána? Er það vandamál eitt og sér ekki það sem við ættum að staldra aðeins við og spyrja okkur að hvernig við leysum? Það er nokkuð sem maður hefði haldið að fullorðið fólk gæti komið sér saman um.

Vandinn er sá að það er of mikið vald í höndum meiri hlutans. Hann er með alla ríkisstjórnina, hann fær framkvæmdarvaldið í kaupbæti, hann fær forseta þingsins, sem ég minni á að var ákveðið af tveimur mönnum, ég meina karlmönnum, (Forseti hringir.) og síðan greiddum við einhvern veginn atkvæði um það eins og menn muna. Þetta er ekki hægt. Við eigum að auka vald minni hlutans, ekki minnka það. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)