144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:36]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Vandinn sem er núna á vinnumarkaði, setur meðal annars sjúklinga í hættu og skapar gríðarlega mikið tjón fyrir alla landsmenn var fyrirséður. Menn töluðu um hann fyrir jól. Þegar vandi er fyrirséður spyr maður að sjálfsögðu: Hvað gerir maður ef það er vandi sem er sífellt að koma upp aftur og er fyrirséður? Hvernig bregst maður við?

Ég leita iðulega í smiðju föður nútímastjórnunar, Peters Druckers. Í bók sinni, The Effective Executive, á íslensku hugsanlega: Árangursríkt framkvæmdafólk, segir hann stjórnendum að spyrja sjálfa sig þessarar spurningar, með leyfi forseta:

„Might previous or current crisis reoccur, and if so, might it be prevented or reduced to a routine?“

Ég ætla að þýða þetta eins og þingsköp kveða á um: Gæti fyrri eða núverandi krísa orðið aftur og ef já, er hægt að koma í veg fyrir hana eða minnka áhrif hennar með því að koma reglu á eða ramma utan um hvernig skuli bregðast við því?

Jafnframt segir hann, með leyfi forseta:

„If so, then make a plan to respond to the crisis and train clerks to manage it.“

Það gæti útlagst: Ef já, skaltu búa til plan til að bregðast við krísunni og þjálfa fólk í því að fylgja því.

Hvers konar plan hefur verið í umræðu? Hverju höfum við kallað eftir? Hverju hafa aðilar vinnumarkaðarins, eins og ASÍ og Samtök atvinnulífsins, verið að kalla eftir þegar kemur að plani, þegar kemur að ramma utan um það að leysa kjaradeilur? Að sjálfsögðu vilja þeir koma í veg fyrir að þær eigi sér stað en annars að það sé góður rammi til að leysa þær.

Við skulum byrja á að skoða hvað ASÍ segir, með leyfi forseta:

„Kjarasamningagerð undanfarinna ára hefur sætt gagnrýni. Bent hefur verið á að samningsgerð hafi oft dregist á langinn sem að einhverju leyti megi rekja til þess að undirbúningur samningsaðila og samningaviðræðurnar hafi ekki verið nægilega markvissar. Þá hefur því verið haldið fram, að umsamdar launahækkanir hafi stundum leitt til efnahagslegs óstöðugleika sem aftur hafi valdið því að markmið um kaupmáttaraukningu hafi ekki náðst.

ASÍ og SA lýstu því yfir í tengslum við endurskoðun kjarasamninga árið 2013 að samtökin vildu koma að sameiginlegu borði með aðilum opinbera vinnumarkaðarins og setja sér markmið um bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Nærtækast töldu ASÍ og SA að leita fyrirmynda hjá nágrannalöndunum sem tekist hefur að auka kaupmátt samhliða lágri verðbólgu. Samtökin töldu rétt að stefna að því að í sumarbyrjun 2013 yrði til sameiginleg sýn allra aðila vinnumarkaðarins á svigrúm atvinnulífsins og samfélagsins til aukins kostnaðar og bættra lífskjara næstu árin. Sú sýn og bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga áttu að vera mótandi við gerð kjarasamninga haustið 2013.“

Þá spyr maður: Hvað er þetta? Hvers vegna hefur ekki verið eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar að klára þennan ramma sem kallast sænska sáttin eða norræna leiðin við gerð kjarasamninga?

Hlustum á hvað þeir segja hjá Samtökum atvinnulífsins. Þau gáfu nýlega út stefnumótun í tíu tillögum til að koma okkur á toppinn á tíu árum. Tillaga nr. 9 er „Betri umgjörð kjarasamninga“ og þar segir, með leyfi forseta:

„Norræna vinnumarkaðslíkanið hefur tryggt efnahagslegan stöðugleika og skapað betri lífskjör en íslenska líkanið.

Aðilar vinnumarkaðar, stjórnvöld og Seðlabankinn bera sameiginlega ábyrgð á því að koma á og viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Efnahagslegur stöðugleiki stuðlar að bættri framleiðni sem er forsenda aukins kaupmáttar og byggir á því að launabreytingar samrýmist hóflegri verðbólgu og gengi krónunnar sé sem stöðugast.

Á undanförnum tveimur áratugum hafa laun á Íslandi hækkað tvöfalt til þrefalt meira á hverju ári en í viðskiptalöndunum. Laun á Íslandi hækkuðu um 250% á þessu tímabili en um 100% í Svíþjóð.“

ASÍ og SA eru sammála um að við þurfum nýjan og sterkari ramma utan um gerð kjarasamninga. Hvar er þessi rammi? Hvers vegna er hann ekki kominn á?

Nýlega var ég á fundi hjá samráðsvettvangi um aukna hagsæld sem er verkefni sem var sett af stað af forsætisráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur á síðasta kjörtímabili. Vettvangurinn er enn þá í gangi og þar eru góðar umræður. Nýlega vorum við að tala nákvæmlega um þetta, að þetta þyrfti að gerast. En núna erum við í miðjum kjaradeilum og það er ekki góð stjórnun. Góð stjórnun felst í að byggja ramma til að koma í veg fyrir að svona kjaradeilur verði. Nú erum við að ræða annan ramma, þ.e. ramma utan um landvernd og virkjanir, og það verður að finna einhvern sameiginlegan grundvöll til að finna sátt fyrir bæði virkjunarsinna og verndarsinna. Þetta er búið að vera 15 ár í gerð, skilst mér, og loksins þegar það komst á á síðasta kjörtímabili saka menn þessa ríkisstjórn og síðustu ríkisstjórn um að hafa brotið rammann og núna er ríkisstjórnin sögð fara á svig við þá löggjöf með bolabrögðum, þ.e. að henda inn fullt af nýjum nýtingarkostum sem ráðuneytið segir að stangist á við lög. Ef þingið samþykkir þá breytingartillögu við þingsályktunartillögu er þingið að álykta að ráðherra eigi að brjóta lög. Þetta býr ekki til traust. Ef þessi ríkisstjórn fer ekki að hegða sér öðruvísi sé ég ekki hvernig fólk geti borið traust til þess að sú ríkisstjórn geti komið sér saman um einhvers konar ramma, sterkan ramma um það hvernig skuli koma í veg fyrir deilur á vinnumarkaði. Þetta er mjög alvarleg staða.

Það kemur mjög skýrt fram á bls. 85 í McKinsey-skýrslunni um Ísland að þetta er stór akkilesarhæll fyrir okkur og efnahagslífið. Í skýrslunni segir að það sé nauðsynlegt að við tökum á þessu til að koma efnahagslífinu hratt í gang, að við getum unnið að langtímastefnumótun. Það er alltaf verið að rekja það, þeir kalla það „policy instability“, þ.e. óstöðugleika í stefnumótun. Það er alltaf verið að rekja upp það sem aðrir gerðu. Slíkur óstöðugleiki þýðir ófyrirsjáanleika og ófyrirsjáanleiki er kostnaðarsamur fyrir alla, fólk sem er að taka ákvarðanir um líf sitt, fyrirtækin og alls konar stofnanir í samfélaginu. Þetta er ofboðslega kostnaðarsamt og mikil tímasóun fyrir allt samfélagið og þar höfum við ekki góðan ramma um það að tryggja að við getum komið okkur saman um hlutina á Alþingi og um dagskrána. Það þýðir líka tímasóun, þetta þýðir allt saman ofboðslega tímasóun og ofboðslega sóun á peningum. Núna hefur þetta líka orðið til þess að ástandið á vinnumarkaði felur í sér að sjúklingar eru í lífshættu. Við getum ekki haldið svona áfram. Við verðum að fara að setja upp nýja ferla sem tryggja ramma í kringum það að við neyðumst til að starfa saman, við verðum að geta starfað að langtímastefnumótun. Ég sé ekkert sterkara verkfæri til þess en það sem landsmenn vildu og sögðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012, að þeir vildu fá að koma sjálfir að málum, að einhver minni hluti landsmanna gæti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um mál sem Alþingi hefur samþykkt. Þá getur meiri hlutinn á þingi ekki rekið eitthvað ofan í kokið á þjóðinni. Þá verða menn hérna inni að vera með miklu meiri sátt og samstöðu um það hvert við erum að fara með samfélagið, um stefnumótun, annars stöðvar þjóðin það bara. Þetta væri það sterkasta. Það er ekkert slæmt við þessa hugmynd en að sjálfsögðu er andstaða við hana af því að stjórnmálamenn vilja síður missa völd. Ég held að við séum komin á þann stað að þjóðin sættir sig ekki við þetta lengur. Það er ástæðan fyrir því að Píratar mælast svona hátt í skoðanakönnunum. Stóra ástæðan er að fólk vill fá að koma meira að málum sem varða það.

Maður er bara svo hissa á að samt sem áður erum við hérna að ræða um ramma þar sem menn eru áfram að reyna með klækjum að þvinga í gegn ofboðslega umdeild mál. Menn virðast ekkert læra af þessu fylgishruni sem stjórnarflokkarnir hafa orðið fyrir.

Aðilar vinnumarkaðarins og ráðuneytin koma að gerð skýrslu um kjarasamninga og vinnumarkað á Norðurlöndum sem er mjög áhugaverð lesning. Undirtitillinn er Skýrsla vinnuhóps aðila vinnumarkaðarins og hún kom út í maí 2013. Ég ráðlegg fólki að kíkja á hana og ríkisstjórninni að dusta rykið af þessari tillögu og koma henni í gagnið. Undir lið 2.4, Ramminn um kjarasamningana, kemur fram, með leyfi forseta:

„2.4.1 Kjarasamningar og löggjöf.

Norræna samningalíkanið byggir á því að ramminn um kjarasamningana er að mestu ákveðinn með samkomulagi heildarsamtaka á vinnumarkaði en ekki með löggjöf. Áratugum saman hafa verið í gildi samningar milli heildarsamtaka á vinnumarkaði um samskiptareglur og meðferð ágreiningsmála, oft nefndir aðalkjarasamningar. Þeir gilda bæði um almenna og opinbera markaðinn. Það er eindreginn vilji aðila á vinnumarkaði að kjör ákvarðist eins mikið og mögulegt er með kjarasamningum og sem minnst með löggjöf, og byggir á langri hefð og víðtækri þátttöku í samtökum atvinnurekenda og launafólks. Í öllum ríkjunum eru í gildi lög um félagsdóm og sáttastörf í vinnudeilum. Náið samstarf er haft við aðila vinnumarkaðarins um breytingar á löggjöf sem varðar vinnumál.“

Þetta er nokkuð sem hægt er að gera. Áfram, með leyfi forseta:

„Lágmarkslaun eru ekki ákveðin með lögum á Norðurlöndunum. Á Íslandi og í Finnlandi segja kjarasamningar til um lágmarkskjör og svo er einnig á tilteknum sviðum í Noregi.

Aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum er mismunandi í ríkjunum fjórum en í þeim öllum er hefð fyrir þríhliða samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.

2.4.2 Umboð til kjarasamningsgerðar.

Umboð til samningsgerðar er hjá stéttarfélögunum en þau geta eftir atvikum framselt það til heildarsamtakanna og það sama gildir hjá samtökum atvinnurekenda.

2.4.3 Laun og bótakerfið.

Á Norðurlöndum fer fram mikil umræða um breytingar á atvinnuleysisbótakerfinu og fyrirkomulagi á félagslegri þjónustu og eru sjónarmið aðila mjög mismunandi. Sumir telja að kerfin geti verið vinnuletjandi, þar sem bætur eru tiltölulega háar miðað við laun, en aðrir telja svo ekki vera. Breytingar eru fyrirhugaðar á ýmsum þáttum bótakerfisins, bæði í Danmörku og Finnlandi, og eru skiptar skoðanir um þær.“

Nýlegar rannsóknir og tölur sýna að einmitt sterkt bótakerfi og sterkt almennt velferðarkerfi eykur atvinnuþátttöku andstætt því sem maður hefur heyrt hingað til þannig að það er áhugavert að horfa á það í þessu samhengi. Áfram, með leyfi forseta:

„2.5 Samningakerfið.

2.5.1 Launakerfin á almennum markaði.

Í Danmörku ná lágmarkslaunasamningar og samningar án launatalna til 85% launamanna. Hækkun lágmarkslauna um ákveðna krónutölu hefur engin bein áhrif á laun yfir lágmarkslaunum. Um 15% launamanna taka laun samkvæmt launatöflum í kjarasamningum (d. normalløn), t.d. bílstjórar og ræstingafólk, og kemur ekki til samninga í fyrirtækjum um laun fyrir slík störf. Launahækkanir eru almennt ekki ákveðnar af stéttarfélögum og samtökum atvinnurekenda heldur eru þær ákveðnar í samningum milli fyrirtækja og trúnaðarmanna.

Í Finnlandi hafa miðlægir samningar lengi verið ráðandi en þróunin er í átt til aukins vægis nærsamninga. Finnsku samtök atvinnulífsins leggja mikla áherslu á breytingar í þessa veru og að samningar verði án atbeina stjórnvalda.

Í Noregi kveða flestir kjarasamningar á um lágmarkslaun sem gilda fyrir allt samningssviðið. Kostnaðarrammi í kjarasamningum er útfærður í fyrirtækjasamningum undir friðarskyldu. Kjarasamningar eru venjulega gerðir til tveggja ára og á fyrra árinu er samið um launabreytingar og sameiginleg mál en eingöngu um launabreytingar á síðara árinu. Á fyrra árinu eru kjarasamningarnir yfirleitt á milli aðildarfélaga heildarsamtaka en á síðara árinu á milli heildarsamtakanna.

Í Svíþjóð hefur hlutur einstaklingsbundinna launa vaxið. Inntak vinnunnar og frammistaða eru þeir meginþættir sem lagt er mat á við ákvörðun einstaklingsbundinna launa. Algengt er að hluti launahækkana í kjarasamningum sé almennur og hluta sé ráðstafað í fyrirtækjasamningum milli trúnaðarmanna og stjórnenda. Vinnuveitendur vilja auka vægi launamyndunar innan fyrirtækja.

2.5.2 Launakerfin hjá hinu opinbera.

Í Danmörku hefur verið samið um launaþróunartryggingu (d. reguleringsordning) sem ætlað er að tryggja svipaða launaþróun hjá opinberum starfsmönnum og á almenna vinnumarkaðnum. Fyrirkomulagið tryggir að laun opinberra starfsmanna hækki að meðaltali um 80% af meðaltali hækkana á almenna vinnumarkaðinum.

Í Noregi er svigrúm í öllum stofnunum til launahækkana samkvæmt stefnumótun í aðalkjarasamningi. Stéttarfélögin hafa yfirleitt samflot við gerð kjarasamninga og í kjölfar þeirra eru gerðir nær- eða stofnanasamningar innan umsamins kostnaðarramma undir friðarskyldu.

Í Svíþjóð vega einstaklingsbundin laun mikið hjá hinu opinbera og launamyndun innan stofnana er algengari en í fyrirtækjum á almennum markaði.

2.5.3 Hlutverk og samningar heildarsamtaka.

Milli heildarsamtakanna eru í gildi aðalkjarasamningar sem eru hluti kjarasamninga stéttarfélaga og félaga vinnuveitenda. Í þeim eru ákvæði um leikreglur, svo sem um meðferð ágreinings, samningsumboð, hlutverk trúnaðarmanna og samstarf.

Kjarasamningar um kaup og kjör eru yfirleitt milli einstakra stéttarfélaga, eða nokkurra saman í ákveðnum atvinnugreinum, og atvinnugreinafélaga vinnuveitenda. Frá þessu eru þó undantekningar. Heildarsamtökin gera þá samninga um sameiginleg mál sem varða öll aðildarfélög þeirra. Meginverkefni heildarsamtakanna er samræming, upplýsingagjöf og almannatengsl og að tryggja að sú launastefna sem mótuð hefur verið taki til alls vinnumarkaðarins.

2.5.4 Samstarf um launaupplýsingar.

Aðilar vinnumarkaðarins eiga með sér náið samstarf um tölfræðiupplýsingar. Markmiðið er að allir samningsaðilar byggi umfjöllun sína á sömu gögnum. Í skýrslum á vegum samstarfsaðila er ekki að finna nein tilmæli eða álit á launabreytingum.“

Ég get haldið áfram að lesa þetta fyrir ykkur í næstu ræðu en ég vil taka saman og klára það sem kom fram um Norðurlöndin í plagginu Kaup og kjör frá ASÍ, með leyfi forseta:

„Þó að vinnumarkaðir landanna séu um margt ólíkir sem og gerð kjarasamninga þá má segja að eftirfarandi atriði hafi einkennt kjarasamningsferlið í öllum löndunum:

Mikið er lagt upp úr vönduðum undirbúningi fyrir kjarasamningsgerðina. Efnahagsforsendur eru greindar og vönduð gögn tekin saman um þróun launa. Þannig er tryggt að allir samningsaðilar búi yfir sömu upplýsingum um kjara- og efnahagsmál.

Lögð er áhersla á að byggja upp kaupmátt í hægum en öruggum skrefum án þess að skaða samkeppnisstöðu landanna eða auka atvinnuleysi. Launahækkanir verða því að samrýmast stöðugu gengi.

Svigrúm til launahækkana í löndunum ræðst af stöðu útflutnings- og samkeppnisgreinanna. Stundum er talað um „undanfara“ í samningsgerðinni en það eru þeir aðilar sem fyrstir semja í hverri lotu. Í Danmörku hefjast kjarasamningsloturnar með viðræðum Dansk Industri (DI) og CO-industri (d. gennembrudsområde). Þar er takturinn sleginn um launahækkanir enda er um að ræða fyrirtæki og félög innan greina í alþjóðlegri samkeppni. Samstaða er á vinnumarkaði um að þessar greinar séu leiðandi við samningsgerðina.“

Sjáið þið, það er ýmislegt hægt að gera og þetta er það sem bæði ASÍ og SA, sem sagt heildarsamtök aðila á vinnumarkaði, eru að kalla eftir. Stjórnvöld verða að taka þátt í þessu starfi og þau verða meðal annars að gera það með löggjöf. Er ekki kominn tími til að gera þetta? Eigum við ekki að hætta þessum frekjustjórnmálum, taka þetta mál, rammalöggjöf um vernd og nýtingu náttúruauðlinda, af dagskrá og setja á dagskrá ramma um gerð kjarasamninga, hvernig við getum leyst það síendurtekna vandamál með heildstæðri rammalöggjöf?