144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:59]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það eru auðvitað hagsmunir í því að virkja, það skapar verðmæti og uppbyggingu o.s.frv. Ef við ætlum að vera með langtímastefnumótun um það hvernig við ætlum að nýta orkuauðlindirnar okkar þá þarf það að gerast í einhverri sátt og það þarf að gerast í faglegu ferli. Það eru ekki einu sjónarmiðin að búa til verðmæti með því að virkja allt saman, það eru líka verndunarsjónarmiðin, þ.e. fólk vill hafa náttúruna, ekki að virkja hana og finnst þá verið að skemma landið. Ég er hvort tveggja í senn, ég er bæði virkjunarsinni og verndarsinni. En það er ekki bara ég eða atvinnuveganefnd eða meiri hlutinn á þingi sem á að taka allar ákvarðanir um þetta, það verður að vera einhver rammi utan um það að geta fundið einhvers konar milliveg, einhvers konar sátt. Sama hvað þessi stjórnvöld og meiri hlutinn í atvinnuveganefnd segir — meiri hlutinn núna segir að meiri hlutinn á síðasta kjörtímabili hafi brotið rammann og verið að svindla. Þýðir það þá að núverandi meiri hluti eigi líka að gera það?