144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:02]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Nákvæmlega, þetta er eitt af sjónarmiðunum. Það eru ekki einungis fólgin verðmæti í því að virkja náttúruna, að virkja þessa náttúruauðlind, það eru líka efnahagsleg verðmæti fólgin í því að vernda hana, eins og hv. þingmaður nefnir. Hvar á að taka ákvörðun um þetta? Á að taka ákvörðun um það í atvinnuveganefnd? Á ekki að skoða málið heildstætt og vera með heildstæðan ramma um það hvernig við eigum að ræða það og meta alla þættina?

Það er miklu farsælla, og McKinsey-skýrslan kemur inn á það, að gera þetta heildstætt og ná stefnumótuninni í langan tíma. Hvað halda menn að gerist núna? Nú klárast þessi þingsályktunartillaga, þ.e. ef hún klárast sem ég trúi að vísu ekki, við getum náttúrlega ekki hleypt henni áfram, en segjum að hún mundi klárast, þá væri þingið búið að álykta að ráðherra skyldi brjóta lög. Það yrði náttúrlega farið í að kæra það en menn mundu samt sem áður fara af stað og þá mundu verndarsinnar reyna að stöðva það, fá lögbann á framkvæmdirnar, og ef það gengur ekki mæta þeir á svæðið. Það er það (Forseti hringir.) sem mun gerast. Halda menn að það sé einhver stöðugleiki þarna? Halda menn að þeir bara fari af stað með þetta? Það verður stöðvað og menn hafa réttmætar væntingar til þess að þetta sé gert í faglegu ferli, þannig að (Forseti hringir.) menn geta algjörlega réttlætt þetta fyrir sjálfum sér. Þetta er ekki gott fyrir framtíð orkuiðnaðar á Íslandi.