144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt sem þingmaðurinn kemur inn á varðandi óafturkræfar ákvarðanir. Það er einmitt þegar um er að ræða óafturkræfar ákvarðanir sem við eigum að vinna í sem mestri sátt. En ef menn vilja bara stjórna og ráða og gera hlutina eins og þeir vilja þá borgar sig að vera frekur og keyra þetta allt saman áfram og byrja, jafnvel þótt óvissa sé um það hvort það standist lög, fara samt af stað og byrja af því að þá er svo dýrt að hætta við. Það er það sem mér sýnist menn ætla að gera og vera að reyna að gera og ætla að reyna að komast upp með. En ég held að landsmenn séu orðnir þreyttir á því og ég held að það muni kosta stjórnarflokkana töluvert af fylgi að fara fram á þennan hátt, af því að það er ekki efnahagslega skynsamlegt að gera þetta svona. Þetta eru lélegir stjórnarhættir.