144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:06]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hef verið að velta fyrir mér í gegnum þessa umræðu alla saman hvað mönnum gangi til með því að hafa hana almennt á dagskrá í ljósi þess hversu umdeild hún er og líka í ljósi þess að stjórnarmeirihlutinn virðist heldur ekki vera kominn með niðurstöðu í málinu. Við erum nú í síðari umræðu um þingsályktunartillögu sem þýðir að það verða ekki fleiri umræður, það er bara þessi umræða og síðan verður atkvæðagreiðsla og þá er málið afgreitt. Það er þess vegna sem við stöndum í þessu.

Svo koma fréttir af málum sem hv. þingmaður nefndi hér, sem eru kjaramál og almenn lífskjör í landinu og þær vinnudeilur sem við horfum upp á. Það er ýmislegt sem ríkisstjórnin getur gert til þess að koma til móts við deiluaðila. Eitt af því voru húsnæðisfrumvörpin umtöluðu, sem orkustangirnar voru sendar út af í fjármálaráðuneytið. Núna eru komnar fréttir um að (Forseti hringir.) þau mál hafi verið dregin til baka. Erum við ekki að sjá eina ástæðu þess að menn halda því til streitu að halda þessu máli hér? Það er til að breiða yfir þetta.