144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:11]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni ræðuna. Kjarni ræðunnar var staðan á vinnumarkaði og mikilvægi stefnumótunar og hann tengdi það því máli sem við erum að ræða hér, orkunýtingu landsvæða og vernd auðlinda. Við hv. þingmaður deilum skoðun um mikilvægi stefnumótunar eins og margoft hefur komið fram.

Í fyrra andsvari sný ég mér að fyrirkomulagi á vinnumarkaði. Hér er sannarlega um að ræða skipulagðan vinnumarkað, þ.e. kaup og kjör eru almennt ákveðin af heildarsamtökum launþega og vinnuveitenda. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér breytingar á því fyrirkomulagi andspænis óskipulögðum vinnumarkaði þar sem kaup og kjör (Forseti hringir.) fara fram bara á milli launþega og vinnuveitenda?