144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:24]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað bara til að taka undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur. Mér finnst eins og það sé verið að hafa okkur að fíflum með því að hafa þetta mál á dagskrá, og ekki bara okkur heldur alla þjóðina. Það er alveg merkilegt að taka þá ákvörðun að henda þessu máli hingað inn þegar margt annað er miklu brýnna.

Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér þessari rammaáætlun. Það kemur fram hjá verkefnisstjórn að hún átti að skila fullunnum niðurstöðum í mars á næsta ári. Af hverju mátti ekki bíða eftir því, hvers vegna í ósköpunum var það ekki gert? Fyrir mér er sátt í samfélaginu eitt það mikilvægasta, langmikilvægast í hverju samfélagi er sáttin og traustið sem ríkir. Það er ekki á Íslandi í dag, því miður. Það er gríðarlegt vantraust og tortryggni og svona vinnubrögð eru ekki til þess fallin að laga það.

Svo velti ég líka fyrir mér hvers vegna í ósköpunum liggi á að fara að virkja í Þjórsá. Við erum ekki að framleiða nema 18 þús. gígavattstundir af rafmagni á þessu landi. Við erum 330 þúsund og við notum ekki nema innan við 20% af því, Íslendingar sjálfir.