144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í því nefndaráliti sem ég og Björt Ólafsdóttir skiluðum frá okkur úr atvinnuveganefnd um þetta mál leggjum við til að málinu verði vísað frá. Vegna hvers? Vegna þess að fyrrverandi umhverfisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, lagði í raun og veru til að verkefnisstjórn 3. áfanga færi í flýtimeðferð með átta kosti. Verkefnisstjórnin kvartaði undan því þegar hún kom fyrir atvinnuveganefnd að þetta hefðu verið allt of fáir kostir til að vinna með og það væri mjög erfitt, en hún skilaði tillögu um einn kost sem var Hvammsvirkjun. Sú tillaga fór inn í þingið.

Við vitum að verkefnisstjórn er búin að fá í hendurnar fjölda kosta og við teljum að úr því sem komið er, miðað við þau vondu vinnubrögð að hafa ekki fleiri kosti undir og þá miklu pressu á verkefnisstjórn að skila þessum eina virkjunarkosti, sem var Hvammsvirkjun, (Forseti hringir.) sé rétt að öllu málinu verði vísað til faglegrar vinnu verkefnisstjórnar sem skili af sér eftir rúmt ár eða svo. Getum við ekki beðið? Það eru 900 (Forseti hringir.) megavött til í kerfinu í dag í landinu. Ætti það ekki að duga?