144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ekki hefur þessi dagur nú bætt ástandið hvað varðar dagskrá þingsins, eins og það hefur verið hér undanfarna daga. Meiri hluti atvinnuveganefndar hafði aldrei í hyggju að fá lögfesta kostina Hagavatnsvirkjun og Skrokköldu. En í viðleitni sinni til þess að reyna að fá að virkja alla kostina í neðri hluta Þjórsár virðast nefndarmenn hafa sett inn þessa kosti til að geta síðan kaupslagað um þá í einhverjum pólitískum hrossakaupum um að ef þeir gæfu þetta eftir þá skyldu einhverjir fá eitthvað annað.

Virðulegur forseti. Þessi vinnubrögð eru svo barnaleg að það tekur engu tali en auðvitað líka fullkomlega ósæmileg og þess vegna löngu tímabært að forseti taki af skarið og taki málið af dagskrá. Þetta gengur ekki öllu lengur, virðulegur forseti.