144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:42]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir með þeim stjórnarandstöðuþingmönnum sem hafa talað og er í sjálfu sér ánægð að sjá að formaður umhverfis- og samgöngunefndar hefur loksins haft tækifæri til þess að koma inn í umræðurnar. Ég tel það mjög mikilvægt því að ég hef sagt eins og fleiri að þetta mál eigi heima þar inni. Ég vona þá auðvitað að sú nefnd standi í fæturna gagnvart þessari þingsályktunartillögu.

Ég vil að sjálfsögðu spyrja eins og aðrir: Hversu lengi eigum við að halda áfram? Hver er tilgangurinn með því að halda áfram þegar ljóst er að málið fær ekki framgang á þinginu eins og það er búið? Við höfum hér stefnuyfirlýsingu með mörgum áhugaverðum markmiðum sem ríkisstjórnin hyggst vinna að og hefði verið áhugavert að sjá, m.a. í menntamálum þar sem „ríkisstjórnin leggur ríka áherslu á að efla menntakerfið með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi“. (Forseti hringir.) Það er ekki það sem er verið að gera, virðulegi forseti, nú þegar (Forseti hringir.) hæstv. menntamálaráðherra gerir atlögu að framhaldsskólum landsins.