144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:43]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hvenær áætlað er að ljúka þingfundi í dag. Þetta er einkennilegur vinnustaður að því leyti, og ég hef ekki kynnst því áður, að maður veit ekki hvenær maður getur stimplað sig út, þó svo að auðvitað lími maður sig við skjáinn eða skjöl þegar heim er komið til að fylgjast meira með. Það er þannig í lífi sums fólks að það á börn og þarf að sækja þau í skóla og leikskóla og því um líkt.

Nú vantar klukkuna korter í fimm og ég þarf eiginlega að fá að vita hvort ég get sótt barnið mitt í skóla. Ef það er eitthvert leyndarmál þá væri kannski ráð að forseti hringdi bara í manninn minn og léti hann vita, þ.e. ef þetta er eitthvað háleynilegt. Mér þætti gott að vita hvenær áætlað er að hætta hér svo að ég geti sinnt öðrum skyldum mínum.