144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:45]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Okkur hefur verið tíðrætt um það að kjarasamningar séu í uppnámi og vinnumarkaðurinn logi. Þá hefur ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir oftar en ekki talað um það að þeir ættu útspil inn í það og það útspil væri mikið framfaraskref í húsnæðismálum.

Virðulegur forseti. Á sunnudaginn var þá var hæstv. húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir í viðtali í þættinum Á Sprengisandi og hún var bjartsýn á að það frumvarp væri á leiðinni og það mundi bara virkilega hafa áhrif á kjarasamningana og þessa umræðu.

Svo kemur í ljós í fréttum að það eru tvær vikur síðan málið var dregið til baka. Ég spyr, virðulegi forseti, er þetta heiðarlegt? (Gripið fram í: Nei.) Ég get ekki betur séð en verið sé vísvitandi að beita blekkingum. Mér finnst það mjög alvarlegt og svo erum við hér á meðan að ræða — hvað? Við erum að ræða rammaáætlun sem er upp í loft þegar við ættum að vera að ræða þetta alvarlega ástand og myndina sem er hér að dragast upp. Það (Forseti hringir.) er ekki nóg með að ráðherrar séu ekki vandanum vaxnir heldur eru þeir ekki að fara með rétt mál gagnvart (Forseti hringir.) fjölmiðlum og almenningi í landinu.