144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hún fór mjög vel yfir deilur um lögmæti þess að setja tillöguna hér á dagskrá og þessa breytingartillögu frá meiri hluta hv. atvinnuveganefndar. Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í þá stöðu sem komin er upp eftir að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hélt sína ræðu í dag og hélt því blákalt fram að hún hlustaði á fyrrverandi verkefnisstjórn og væri tilbúin að styðja niðurstöðu hennar sem fram kom áður en umsagnarferli fór í gang sem boðað er með bráðabirgðaákvæði í lögum um rammaáætlun, en ætlaði ekki að hlusta á verkefnisstjórnina sem nú starfar. Ég velti því fyrir mér hver staða verkefnisstjórnarinnar er núna eftir þessi orð hæstv. ráðherra. Er í raun líklegt að hún muni starfa áfram ef hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra lítur fram hjá niðurstöðum hennar?

Síðan vil ég líka biðja hv. þingmann, ef hún hefur tíma, að segja álit sitt á orðum hæstv. forsætisráðherra í dag en hann sagði eitthvað á þá leið að það yrði ekki rætt við stjórnarandstöðuna á meðan þetta mál væri á dagskrá. Ég skildi hæstv. forsætisráðherra þannig að það yrði bara ekkert talað við stjórnarandstöðuna á meðan hún væri að ræða þessi mál. Ég vil spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) hvernig hún túlkaði þessi orð ráðherrans.