144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef við hyggjum fyrst að orðum hæstv. forsætisráðherra þá er þetta ekki mikil stefnubreyting þar sem hæstv. forsætisráðherra hefur kosið í störfum sínum að hafa sem minnst samráð við stjórnarandstöðuna, gjörsamlega þvert á það sem kemur fram í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr þar sem sérstaklega er talað um gildi samráðs og samvinnu. Ég hef ekki orðið vör við miklar umleitanir af hálfu hæstv. forsætisráðherra um að ræða við stjórnarandstöðuna og mér fannst hann bara ítreka það í dag að hann sé ekki reiðubúinn til neins samtals um þetta mál meðan þessi umræða stendur. Það þýðir auðvitað að hann er ekki tilbúinn í neinar sættir í þessu máli. Það er dapurlegt af hálfu Framsóknarflokksins sem einhvern tímann var kallaður flokkur sátta í íslensku samfélagi. Ég held að sú arfleifð sé löngu horfin.

Hvað varðar hæstv. umhverfisráðherra þá spurði ég hæstv. umhverfisráðherra hvort yfirlýsing hennar um að hún kysi að taka mark á síðustu verkefnisstjórn en ekki núverandi verkefnisstjórn væri vantraust á núverandi verkefnisstjórn. Hún sagði að hún treysti vel núverandi verkefnisstjórn, en sagði líka að afstaða hennar mótaðist af tillögum síðustu verkefnisstjórnar. Af því að orðið misskilningur kemur nú oft upp þegar rætt er um núverandi ríkisstjórn af einhverjum orsökum þá held ég að þarna sé að baki einhver mikill og djúpstæður misskilningur á lögum um rammaáætlun af því að hæstv. ráðherra talar þarna þvert á álit síns eigin ráðuneytis sem snýst um að núverandi verkefnisstjórn hefur lögbundnu hlutverki að gegna. Það er ekki valkvætt hvernig maður túlkar nákvæmlega þau lög, að maður geti bara ákveðið að hlusta á það sem síðasta verkefnisstjórn sagði og ekki það sem núverandi verkefnisstjórn segir. (Forseti hringir.) En þetta er flókin staða fyrir núverandi verkefnisstjórn.