144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hv. þingmaður kom inn á og minnti okkur á samþykkt sem við gerðum hér á síðasta kjörtímabili, þingsályktunartillögu sem samþykkt var 63:0, sem m.a. fjallaði um betri stjórnmálamenningu, að það væri nauðsynlegt að bæta stjórnmálamenninguna og menn voru sammála því í umræðum um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að hv. þingmenn þyrftu að taka til í sínum ranni hvað það varðaði. Nú eru tvö ár liðin síðan hæstv. ríkisstjórn tók við völdum og við erum farin að ræða hér hrossakaup um auðlindir landsins, náttúruauðlindir bæði til lands og sjávar.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvaða ráð telur hún að stjórnarandstaðan hafi í þessari stöðu annað en að vera með málþóf?