144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er flókin staða og tengist auðvitað beint því sem hæstv. fjármálaráðherra reifaði á Facebook-síðu sinni fyrr í dag, þ.e. það þyrfti að stytta ræðutíma stjórnarandstöðunnar og auðvitað meiri hlutans líka, en fyrst og fremst er það auðvitað stjórnarandstaðan sem nýtir hér ræðutíma vegna þess að hún hefur engin önnur úrræði. Ég hef verið í hópi þeirra sem hafa talað fyrir því að stjórnarandstaðan eða skilyrtur minni hluti þingmanna geti skotið málum til þjóðarinnar, svo dæmi sé tekið. Ég hef ekki heyrt mikinn áhuga á því hjá hv. þingmönnum meiri hlutans enn þá, en það kann að breytast ef þeim finnst erfitt að sitja undir þessari umræðu, en umræðan er það tæki sem við höfum.

Ég verð að segja það, af því að fólk ræðir nú þessa umræðu alltaf með mjög neikvæðum hætti eins og hún sé mjög slæm, að mér finnst afskaplega margt hafa nú þegar komið fram í umræðunni. Hún hefur gert mér talsvert ljósara t.d. hvaða sjónarmið voru í huga hv. meiri hluta atvinnuveganefndar þegar hann afgreiddi málið, þannig að ég lít á að umræðan sé gjarnan til góðs (Forseti hringir.) þótt hún taki tíma.