144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:22]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu og fagna því að við skulum vera komin af stað með dagskrána og ræðum málefnalega um þessa hluti.

Hv. þingmaður gerir að umtalsefni og gerir lítið úr umsögnum sveitarstjórna og samtökum sveitarfélaga sem m.a. sá sem hér stendur hefur verið að vitna í og eins umsögn frá Alþýðusambandi Íslands. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða umsagnir það hafi verið sem fyrrverandi umhverfisráðherra tók svona mikið mark á að hún færði sex virkjunarkosti úr nýtingarflokki yfir í biðflokk, hvort það hafi verið merkilegri aðilar, hvaða umsagnir það hafi verið og frá hvaða aðilum sem höfðu meira vit á þessu en þessir faglegu hópar sem voru búnir að leggja mikla vinnu í að undirbúa þeirra tillögu. Mig langar að fá svar við því.