144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ákveðin tilhneiging hér í umræðunni til þess að segja að ekki megi tala um suma hluti. Þegar ég nefni fossa, tiltekna fossa, þá er ég ekki að segja að það sé neinn búinn að leggja til að virkja þá, ég er bara að ræða það að við erum búin að virkja helming af öllu vatnsafli og jarðvarma. Þeir fossar sem ég nefndi hafa ekki verið virkjaðir og þeir eru dýrmætir. Það er stóra myndin sem mér finnst fullkomlega eðlilegt að ræða og ég ætla ekki að láta segja mér það (JónG: … erum við sammála.) — já, gott, — að ég sé að drepa umræðunni á dreif.

Hvað varðar hins vegar þessar athugasemdir um ferlið þá er það svo í fyrsta lagi að gert er ráð fyrir umsagnarferli í lögunum. Það er gert ráð fyrir umsagnarferli í lögunum. Út frá því getur maður dregið þá ályktun eins og ég sagði áðan að þingið geti svo gert breytingartillögur á þeim flokkum sem lagðir eru til af ráðherra, en ég set spurningarmerki við það að þingið sé beinlínis að gera tillögur um nýja kosti. Og athugum það að hér er um talsvert afdrifaríkari tillögur að ræða en um var að ræða á síðasta kjörtímabili þar sem lagt var til að færa úr nýtingu í bið. (Forseti hringir.) Hér er verið að (Forseti hringir.) leggja til að færa kosti úr bið í nýtingu, þ.e. (Forseti hringir.) talsvert endanlegri ákvörðun.