144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þá ósk sem hefur komið fram um að hæstv. umhverfisráðherra komi hingað og sitji við þessa umræðu. Það þýðir ekki að koma hingað inn með einhverjar tilkynningar um að menn séu að taka ákvarðanir um framhald málsins í ríkisstjórn á morgnana, tilkynna okkur það í þinginu í kringum hádegið og hverfa síðan á braut. Við erum í lokaumræðu um málið, þetta er lokaumferðin. Við höfum ekki annan tíma.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í morgun að hann ætlaði að ræða við stjórnarandstöðuna þegar þessari umræðu væri lokið, en þetta er lokaumræðan þannig að við hljótum að fara fram á það að minnsta kosti að ráðherrarnir, sem fjalla um þetta mál á fundum sínum á morgnana og taka ákvarðanir um það hvernig verði farið með málið að lokum, sitji hér og hlýði á rökstuðning okkar í stjórnarandstöðunni.