144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:42]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú er ég glöð að sjá hæstv. forseta aftur í sæti sínu því að ég hef verið hér eins og biluð plata í allan dag að spyrja virðulega forseta sem hér hafa setið alltaf sömu spurningarinnar, af hverju við höfum þetta mál á dagskrá, af hverju það sé í forgangi. Ég hef áður spurt þann hæstv. forseta sem nú er kominn á hvaða faglega mati hann byggði úrskurð sinn um að hleypa breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar áfram. Ég og fleiri þingmenn teljum breytingartillöguna hreinlega ekki tæka, að hún standist ekki lög um rammaáætlun. Ég bið enn á ný um og þætti vænt um að fá svör við spurningunni.