144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:46]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað og óska eftir því að umhverfisráðherra sé í sal. Raunar bíð ég eftir að sjá þá tillögu sem hún boðaði hér í dag þannig að maður sjái rökstuðninginn á bak við það að upphaflegu frumvarpi sé breytt með þeim hætti að hér er tekinn einn virkjunarkostur og það talið fullnægjandi.

Í öðru lagi tel ég gríðarlega mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra verði við umræðuna vegna þess að ég datt í þann pytt, sem ég hefði átt að varast, að trúa forsætisráðherra þegar hann benti á að ASÍ legðist með tillögu og breytingartillögu. Það er hins vegar ekkert í þessu bréfi frá ASÍ, bara akkúrat ekki neitt. Það segist hafa stutt tillöguna 2012. Þegar laxarökin komu taldi ASÍ æskilegt að verkefnisstjórnin afgreiddi þetta, drægi saman lokaniðurstöðu um að ljúka ætti vinnu verkefnisstjórnar áður en málinu væri lokið. Þetta er nákvæmlega það sama og stjórnarandstaðan öll er að biðja um. Það að hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) ljúgi því upp á ASÍ að það hafi einhverja aðra skoðun er enn einn dónaskapur hæstv. ráðherra við þetta þing.