144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:48]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir með neinum sem kvartar undan umræðum, þessi umræða er gríðarlega upplýsandi. Ég tek sem dæmi það sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson reifaði hér, þ.e. umsögn ASÍ sem ég er búin að skoða síðan, þar sem einmitt er mælt með því að beðið verði eftir niðurstöðum verkefnisstjórnar rammaáætlunar um alla þá kosti sem meiri hluti hv. atvinnuveganefndar leggur hér til. Ég held að við þurfum bara að tala sem mest hér til þess að fá einmitt allar þessar upplýsingar og staðreyndir fram því að umræðan er alltaf góð. Við störfum í málstofu, ekki á færibandi. Það er engin ástæða til þess, eins og hæstv. fjármálaráðherra segir, að hafa áhyggjur af afköstum Alþingis. Ég held að það sýni einhvern misskilning á Alþingi, Alþingi á einmitt að vanda sig og til þess er umræðan.

Ég geri athugasemdir við þá sem tala um kvartanir og kveinstafi. Ég held að þetta sé einmitt mjög góð umræða. Ég skil ekkert í hv. þingmönnum meiri hlutans að kvarta undan umræðunni. Þeir ættu að fagna henni.