144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:17]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við upphaf þingfundar kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra að búið væri að gera samkomulag um að Hagavatnsvirkjun yrði dregin til baka úr þeim tillögum sem hér liggja fyrir, þ.e. það er búið að boða breytingartillögu við þá breytingartillögu sem þegar hefur komið frá hv. atvinnuveganefnd. Þetta sagði líka hæstv. umhverfisráðherra hérna áðan.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort komin sé fram formleg tillaga um þetta. Líkt og ég sagði hérna áðan í umræðu um fundarstjórn forseta þá erum við í síðari umræðu um þetta mál og þá hlýtur að skipta máli hvort komnar séu fram breytingartillögur við breytingartillöguna því að við hljótum að þurfa að hafa það undir þegar við ræðum málið. (HHj: Heyr, heyr!) Það eitt og sér, ef þetta er ekki komið fram, eru gríðarlega (Forseti hringir.) góð rök fyrir því að við frestum þessari umræðu nú (Forseti hringir.) og bíðum eftir því að tillagan komi formlega fram.