144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:48]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Ég velti þessu líka fyrir mér. Ég veit ekki á hvaða stað við erum komin ef við ætlum að sniðganga rammaáætlun eins og breytingartillaga meiri hlutans gerir ráð fyrir. Þá er ég ansi hrædd um að við séum búin að henda tækinu, og við erum búin að gera það með því. Ég vil þá að það liggi alveg ljóst fyrir að hér verði stjórnmálamenn uppi í pontu, með sinn meiri hluta á bak við sig, eða sitt fólk sem situr hér daglangt og fram á nætur, og treður í gegn þeim virkjunarkostum eða verndarkostum sem þeim sýnist. Þá verður það þannig. Mér finnst það ömurlegt. Þess vegna spyrnir maður við fótum. Það þarf að vera rosalega skýrt að það er verið að spyrna við fótum út af því að það er verið að eyðileggja svo gott verkfæri, faglegt verkfæri sem við getum verið svo stolt af. Maður er ekkert alltaf sáttur við (Forseti hringir.) niðurstöðuna, hvorki náttúruverndarsinnar né virkjunarsinnar, en þarna er verið að finna málamiðlanir.