144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú er líklega rúmur klukkutími liðinn síðan við báðum um að hæstv. umhverfisráðherra yrði gert viðvart um að við óskuðum hennar hingað í umræðuna og hún er ekki komin. Við gerðum jafnframt að ósk okkar að hæstv. forsætisráðherra, sem kallaði sjálfur eftir rökræðum um þetta mál fyrr í dag, yrði gert viðvart um að við óskuðum hans hingað í umræðuna. Hann er ekki hér heldur. Ég vil því beina því aftur til virðulegs forseta og spyrja hann hvort hæstv. ráðherrum hafi verið gert viðvart um að við vildum fá þá í umræðuna.

Ég spurði líka fyrir rúmum klukkutíma út í það hvort formleg breytingartillaga við breytingartillöguna hefði borist. Ég hef heldur ekki fengið nein svör við því og ég ítreka því enn og aftur spurningar mínar til hæstv. forseta. Er búið að gera ráðherrunum viðvart og er komin fram formleg breytingartillaga við breytingartillöguna?