144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:12]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hinn 16. maí 2011 samþykktu þingmenn allra flokka hér á Alþingi lög um verndar- og orkunýtingaráætlun. Með lögunum var sett heildstæð löggjöf um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og kveðið á um stöðu áætlunarinnar gagnvart stjórnvöldum við gerð skipulagsáætlana og veitingu opinberra leyfa, þar með talið rannsóknar-, nýtingar- og virkjunarleyfa. Þetta eru lögin um rammaáætlun og ég leyfi mér að halda því fram að þetta sé ein merkasta löggjöf sem sett hefur verið í landinu í seinni tíð, vegna þess að með þessum lögum var stefnt að því að skapa grundvöll fyrir áframhaldandi vinnu við mat og flokkun á virkjunarkostum. Og ekki aðeins það, þetta var tilraun til að koma málum, sem hafa valdið miklum deilum í landinu, yfir í skynsemisfarveg, þannig að við tækjumst á um málið, því að enginn gerði ráð fyrir því að við yrðum sammála um öll atriði, á einhverjum vitlegum forsendum, byggjum til ferli sem tryggði slíkt.

Þó að þessi lög komi þarna til sögunnar, vorið 2011, höfðu ýmsir þættir sem lögin styðjast við áður verið við lýði. Þannig höfðu verið starfandi verkefnisstjórnir um verndar- og orkunýtingu. Ein slík verkefnisstjórn hafði verið starfandi á árunum 1999–2003, síðan kom önnur til sögunnar 2004–2011 og á fyrstu mánuðum 2013 var enn skipuð ný verkefnisstjórn.

Þessi mál eiga sér langa sögu. Það er hægt að fara langt aftur en Alþingi samþykkti í apríl 1989 þingsályktunartillögu frá Hjörleifi Guttormssyni, þáverandi hv. þingmanni. Þingsályktunartillagan og þingsályktunin, sem endanlega var samþykkt, er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa á vegum Náttúruverndarráðs í samráði við yfirvöld orkumála áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera. Drög að slíkri áætlun verði lögð fyrir Alþingi til kynningar fyrir árslok 1990 og áætlunin fullbúin til staðfestingar síðar.“

Mig langar til að vitna í greinargerð sem fylgdi þessari þingsályktun, vegna þess að þar er að finna hugsunina sem býr að baki lögunum um rammaáætlun. Hér segir, með leyfi forseta:

„Á fimmta náttúruverndarþingi 1984 var ályktað að við undirbúning orkumannvirkja þurfi strax í upphafi að ganga úr skugga um umhverfisáhrif þeirra og flýta þurfi vinnu við endurskoðun á forgangsröð með hliðsjón af umhverfis- og náttúruvernd.

Á vegum Náttúruverndarráðs hefur þegar farið fram mikil vinna og gagnaöflun til að flokka vatnsföll og fossa, jarðhitasvæði og einstaka hveri út frá verndargildi, svo og votlendissvæði og aðrar gróðurvinjar á hálendinu sem gætu orðið í hættu vegna vatnsmiðlana.“ — Og hér er vísað í fylgiskjöl.

Áfram les ég, með leyfi forseta, og vitna í greinargerð með þingsályktuninni frá 24. apríl 1989:

„Sérstök samráðsnefnd Náttúruverndarráðs og iðnaðarráðuneytis hefur allt frá árinu 1972 fjallað um virkjanaáform og umhverfisáhrif sem þeim mundu fylgja ef til framkvæmda kæmi. Þar hefur hins vegar ekki verið um heildstætt mat að ræða með tilliti til nýtingar og verndunar.“ — Talað er um heildstætt mat.

„Í tillögunni er gert ráð fyrir að Náttúruverndarráð hafi forgöngu um gerð verndaráætlunar að höfðu samráði við yfirvöld orkumála. Er eðlilegt að það gerist á vettvangi samráðsnefndarinnar. Alþingi fjallaði síðan um og staðfesti áætlunina og þannig fengjust marktækar leiðbeiningar um rannsóknir og framkvæmdaáform til langs tíma. Með slíkri vinnuaðferð væri tryggt að ekki sé verið að verja fjármagni til rannsókna í þágu orkuvinnslu á svæðum sem vilji er til að varðveita sem lengst í náttúrulegu horfi og jafnframt væru síður líkur á hagsmunaárekstrum og hatrömmum deilum sem dæmi eru um hérlendis.

Í þessu sambandi má vísa til reynslu Norðmanna þar sem norska Stórþingið hefur friðlýst fjölmörg vatnsföll, sumpart um takmarkaðan tíma.“

Það er annað sem fram kom í málflutningi tillögusmiðsins frá þessum tíma, Hjörleifs Guttormssonar, sem varð síðan eins konar rauður þráður í hans málafylgju um þessi mál hér á Alþingi. Hann vildi að sett yrði þak til langs tíma á raforkuframleiðslu í landinu, að við gerðum okkur grein fyrir því hvað við vildum framleiða mikið rafmagn. Hann flutti meðal annars tillögu til þingsályktunar 1997, og vísa ég þar aftur í Hjörleif Guttormsson, þar sem hann víkur að þessum málum.

Hann segir að á þeim tíma, 1997, hafi heildarraforkunotkun í landinu verið tæpar 5,5 teravattstundir á ári og orkuspárnefnd hafi þá gert ráð fyrir að heildarraforkunotkun landsmanna árið 2025 yrði 9,4 teravött að óbreyttri stóriðjunotkun. Nú 14 árum síðar — og þetta er skrifað 2012 — er hins vegar framleidd orka nálægt 17 teravattstundum og hefur á þessum tíma vaxið um röskar 11 teravattstundir, fyrst og fremst vegna aukinnar sölu til stóriðju. Þetta sýnir ljóslega afleiðingar þess að hafa opið hús — og ég er vitna hér í gögn frá Hjörleifi Guttormssyni — fyrir raforkusölu til orkufreks iðnaðar.

Ég vitna enn fremur í hann, með leyfi forseta:

„Í umræddri þingsályktunartillögu“ — þetta er frá 1997 — „gerði ég ráð fyrir að raforkuframleiðsla með vatnsafli og jarðvarma fram til ársins 2050 færi ekki yfir 30 teravattstundir á ári, enda væri í þeirri tölu innifalið að innlend orka hafi þá leyst innflutt jarðefnaeldsneyti að fullu af hólmi.“ —Takið eftir því, „að fullu af hólmi“. Þetta er náttúrlega framtíðin sem við þurfum að hafa í huga þegar við ræðum um nýtinguna á okkar raforku.

Hann heldur áfram, með leyfi forseta:

„Ljóst er að núverandi hugmyndir orkufyrirtækja landsins um aukningu raforkuframleiðslu stefna langt yfir þessi mörk, t.d. áformar Landsvirkjun ein að bæta á næstu 15 árum við framleiðslu sína 11 teravattstundum frá nýjum virkjunum.“

Þetta hefur mér, hæstv. forseti, oft fundist vanta inn í þessa umræðu. Hvaða markmið eru það sem við setjum okkur hvað varðar framleiðsluna, hvað ætlum við að ganga langt? Við horfum á einstakar virkjanir en að mínum dómi mætti fara meira fyrir umræðu um markmiðin sem við setjum okkur. Hvað ætlum við að ganga langt? Ætlum við að leysa innflutt jarðefnaeldsneyti að fullu af hólmi, t.d. til að knýja fiskiflotann okkar? Ætlum við að reyna þetta? Og hvað ætlum við okkur mikla orku og miklar virkjanir? Það þarf að samþætta umræðu um þessi efni hinni um virkjunarkostina.

Síðan hafa menn farið yfir það í þessari umræðu hvað gerðist þegar lögin voru sett á sínum tíma, vorið 2011, og síðan skipuð ný verkefnisstjórn á fyrstu mánuðum ársins 2013. Sett voru bráðabirgðaákvæði í lögin frá 2011 þess eðlis að niðurstöður þeirrar verkefnisstjórnar sem þá hafði verið starfandi skyldu fara í umsagnarferli, og það var á grundvelli þeirra umsagna sem bárust um tilteknar virkjanir að þær voru teknar úr nýtingarflokki og snúið aftur í biðflokk.

Þetta er ekki sambærilegt við það sem er að gerast nú, að mínum dómi, þegar niðurstöður frá verkefnisstjórn liggja ekki fyrir, umfjöllun er ekki lokið, en lögum samkvæmt á að ljúka umfjöllun áður en málið kemur til kasta Alþingis. Um þetta hafa menn verið að deila og kveðja sér hljóðs hér um fundarstjórn forseta lengi og ítrekað; við teljum í stjórnarandstöðunni að hér sé ekki farið að lögum í strangasta skilningi, alls ekki. Það er ekkert óeðlilegt að menn taki það upp þegar rætt er um fundarstjórn forseta. Og síðan gerist það í dag, eins og við þekkjum, að inni í miðri síðari umræðu um þessa þingsályktunartillögu kveður hæstv. forsætisráðherra sér hljóðs og segir að menn hafi ákveðið að draga einn kostinn, eina tillöguna, til baka. Auðvitað hefði verið eðlilegt við slíkar aðstæður að stöðva umræðuna, kalla viðkomandi þingnefnd til fundar og ræða málið þar áður en umræðunni yrði lokið. Þetta eru því vinnubrögð sem er ekkert undarlegt að menn kveðji sér hljóðs um hér á þingi, undir liðnum um fundarstjórn forseta, og gagnrýni mjög harðlega.

Síðan er það hitt að þó að við höfum fundið þetta ferli sem við viljum að verði sem faglegast og „saglegast“ til að fara yfir virkjunarkosti, þá er endanlegt vald til ákvarðana hér í þessari stofnun, á Alþingi. Við erum ekki endanlega bundin af því sem kemur frá þessum verkefnisstjórnum en þegar við ræðum málin og tökum ákvarðanir þá gerum við það á grundvelli yfirvegunar, gerum það á þeim grundvelli að fyrir liggur faglegt mat og við tökum upplýsta ákvörðun um málið. Og auðvitað gera allir sér grein fyrir því að þegar mál hafa farið í gegnum slíkt ferli þá er mjög þungur róður gegn slíkum ákvörðunum. En hann þarf stundum að eiga sér stað, að sjálfsögðu. Við mundum aldrei fallast á óútfyllta tékka og taka því sem frá verkefnisstjórnum bærist umyrðalaust, það mundi ég aldrei vera tilbúinn að undirgangast, alveg sama hvaðan það kæmi, þó að mér finnist mjög líklegt eftir ferlin að maður mundi sætta sig við niðurstöðurnar.

Skrifaður var leiðari í Morgunblaðið fyrir nokkrum dögum þar sem leiðarahöfundur velti vöngum yfir því hvort þeir sem hér tækju þátt í umræðunni þekktu gerla til allra þeirra valkosta sem við værum að ræða. Skrokkölduvirkjun, hvað þekkja menn vel til Skrokkölduvirkjunar? Ég geri það ekki, en ég veit að það eru margir hér í salnum sem gera það, hafa sett sig inn í þessi mál og þekkja mætavel til málsins og hafa um það efasemdir. En það er ein önnur virkjun sem mætti nefna, Hvammsvirkjun í Þjórsá, sem er afgreidd frá verkefnisstjórn sem jákvæð. Ég er andvígur henni, ég mundi greiða atkvæði gegn henni.

Ég velti því fyrir mér — ef það á að ganga eftir sem við erum að verða vitni að hér, að stjórnarmeirihlutinn taki rammaáætlun, þessi merku lög, og geri þau nánast að engu — hvort við eigum ekki að ganga alla leið og fara þá bara að tala um einstakar virkjanir. Þá vil ég gjarnan verja mínum tíma í að ræða Hvammsvirkjun og Skrokköldu. Og hver veit nema sá tími sé að renna upp að við eigum að taka þessi mál og einstakar virkjanir og fara með í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvers vegna? Til þess að kynna Urriðafoss fyrir þjóðinni, til að kynna Skrokkölduvirkjun fyrir þjóðinni, Hagavatn. Kannski þarf öll þjóðin að setja sig betur inn í þessi mál öll — og gefst betra tækifæri til slíks en í þjóðaratkvæðagreiðslu? Ég held ekki. Við erum að tala hér um mjög afdrifaríkar ákvarðanir og mér hefur fundist margir tala um niðurstöður verkefnisstjórnar, t.d. varðandi Hvammsvirkjun, af óþægilega mikilli léttúð.

Hve margir hafa gengið upp eftir Þjórsá og skoðað í reynd hvað muni gerast þegar farið yrði að umbylta landinu þarna? Ég er búinn að gera það. En sama löggjafarþing og er tilbúið að sekta menn sem keyra út af vegarslóðum er tilbúið að hleypa þeim óargadýrum sem stórvirkar vinnuvélar eru inn í náttúruna og umbylta henni þannig að ekki verður aftur snúið, það er það sem er að gerast.

Þess vegna segi ég að í þessum ferlum eru ákveðnar mótsagnir. Annars vegar er ég að dásama löggjöf sem ég tel vera einhverja hina merkustu hér í seinni tíð, löggjöf um rammaáætlun; mér finnst hún merk vegna þess að hún hjálpar okkur að taka upplýstar ákvarðanir þar sem málin hafa verið skoðuð frá öllum hliðum, eða sem flestum, og rökin skilmerkilega færð fram þannig að við getum skoðað þau. Hins vegar er ég að segja að í þessum ákvörðunum eru huglægir þættir — hvað mér finnst fallegt en hugsanlega ekki þér eða þér — sem engin verkefnisstjórn eða fagleg nefnd getur endanlega til lykta ráðið, vegna þess að það er huglægt. Finnst okkur Gullfoss fallegur, Dettifoss? Þetta er ekkert merkilegt, sagði einu sinni umhverfisráðherra um Kárahnjúkasvæðið, þetta er ekkert sérstaklega fallegt. Kannski fannst henni það, ég efast ekkert um það. Aðrir eru annarrar skoðunar og þannig verður þetta alltaf, að sjálfsögðu. Við finnum aldrei hina endanlegu lausn. En við finnum vinnuferlið og verkferlið sem auðveldar okkur að komast að niðurstöðu sem er byggð á upplýsingum, sem er upplýst.

Það dapurlega við þessa umræðu núna og það ferli sem verið er að fara með þetta mál í gegnum er að það er verið að taka málið upp úr þeim ferli. Þess vegna koma menn hér og kveðja sér hljóðs um fundarstjórn forseta, það er fullkomlega eðlilegt. Það er hins vegar dapurlegt þegar fulltrúar stjórnarmeirihlutans sitja hér með skeiðklukkur og talnaklukkur og kladda og telja hvað menn hafi komið oft upp, hvað það sé langur tími. Þetta er mæling á hve mjög fólki er misboðið vegna þessara vinnubragða. Svo er það nú þannig að þegar verið er að ráðast í breytingar sem hafa áhrif á náttúru okkar lands og umhverfi þá tekur það svolítið í hjartað og sálina hjá okkur mörgum, það gerir það. Og það er nokkuð sem verður að virða. Það ber stjórnarmeirihlutanum hér á Alþingi og það ber ríkisstjórn þessa lands að virða, að við viljum láta koma fram við okkur af sanngirni og líka með virðingu fyrir landinu okkar.