144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:44]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég er algjörlega sammála honum í þessu máli. Við þurfum að vanda okkur. Við þurfum að horfa til framtíðar. Við eigum að skila landinu frá okkur til afkomenda okkar í sem bestu horfi.

Ég er að velta fyrir mér því sem hann kom inn á síðast: Hvað þurfum við að virkja mikið? Í dag erum við að virkja 18 þúsund gígavattstundir — hugsið ykkur 18 þúsund gígavattstundir. En við getum ekki skaffað þriggja fasa rafmagn í Skaftárhrepp. Veltið því fyrir ykkur. Af þessum 18 þúsund gígavattstundum nota íslensk heimili og fyrirtæki tæplega 4 þúsund. Svo eru menn hissa á því að við teljum þetta hálfgerða klikkun. Þetta er náttúrlega ekkert annað en hálfgerð klikkun vegna þess að þetta skilar okkur ekki því sem við eigum að fá fyrir arðinn af náttúruauðlindum, ef við ætlum að virkja þær á annað borð. Þetta er það fyrsta sem við eigum að gera. Menn vilja stækka kökuna. Það þarf ekkert að stækka kökuna Íslandi, það þarf bara að skipta henni réttar.