144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:48]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum nokkuð sammála um þessi efni og líka varðandi þjóðratkvæðagreiðsluna. Ég er í rauninni ekki að leggja til að hver einasta virkjun fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og ekki heldur þær sem ég kann að vera ósammála. Það hlýtur að verða miklu stærra mat hvað gera skal.

Ég nefndi eingöngu hugsunina með þjóðaratkvæðagreiðsluna í því samhengi að vekja okkur til vitundar um málið. Það var eiginlega leiðarinn í Morgunblaðinu sem vakti mig þegar hann spurði: Hve margir þekkja Skrokköldu? Ég varð að játa það þar sem ég sat við eldhúsborðið heima og las leiðarann að ég þekkti hana ekkert sérstaklega vel. Ég fór hins vegar og leitaði gagna og spurði náttúrufræðinga og vísindamenn út í Skrokköldu og veit miklu meira um hana núna. Ég horfi á það sem gerist í þjóðaratkvæðagreiðslu, vegna þess að þá fer fólk að leita. Ég talaði um það í samhenginu að kynna fólk fyrir Skrokköldu og Urriðafossi.

Hvað hafa margir farið og skoðað Urriðafoss, þennan fallega foss í neðri hluta Þjórsár sem menn ætla að fórna, eru tilbúnir að fórna? Væri það ekki þess virði að þjóðin legði leið sína að Urriðafossi og skoðaði fossinn og vissi hvað hún væri að tala um? Það er í því samhengi sem ég talaði um þetta mál. En hvað gerist? Ég held að ef þetta verður keyrt í gegn á þennan hátt muni það kalla á gríðarleg mótmæli utan þingsins. Við fengum forsmekkinn í Háskólabíói fyrir skömmu og ég held að þjóðin sé það vel vakandi að þetta muni vekja marga, sem enn eru sofandi, af sínum svefni og hinir sem eru komnir í baráttu gegn þessum áformum muni herðast.