144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[13:53]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Enn störfum við samkvæmt starfsáætlun þingsins, þeirri sem í gildi er og er til á vef Alþingis, og hendir það eina ferðina enn að hæstv. ráðherra, í þetta skipti hæstv. forsætisráðherra, gefur út einhvers konar tilkynningu um að það standi til að funda fram í júlí. Ég óska eftir að forseti geri grein fyrir því hver staða þessa máls er. Við höfum ekki verið upplýst um að neitt annað stæði til en að við héldum okkur við starfsáætlun.

Stjórnleysið er svo sem hætt að koma manni á óvart þegar þessi ríkisstjórn er annars vegar. Skorturinn á forustu og yfirsýn er algjör í þessu sem öðru þannig að hin fumkennda tilkynning hæstv. forsætisráðherra er svo sem alveg í þeim anda. Ég spyr hæstv. forseta hvort forseti hafi átt eitthvert samtal við forsætisráðherra um framhald þinghaldsins eða hvort þetta sé ein af þessum krampakenndu yfirlýsingum forsætisráðherra sem reynist svo vera misskilningur.