144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[13:55]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að gera athugasemd við dagskrána í dag. Hér stendur til að við ræðum enn og aftur mjög umdeilt mál um rammaáætlun sem inniheldur breytingartillögu sem vægast sagt engin samstaða er um. Ég hvet hæstv. forseta til þess að leggja höfuðið í bleyti og opna augu sín fyrir því að það kunna að vera aðrar leiðir til að afgreiða þetta mál og setja það í uppbyggilegri farveg landsmönnum öllum til heilla. Við þurfum ekki að hafa þinghaldið svona.

Svo tek ég undir með öðrum þeim sem hafa talað um mikilvægi þess að núna setjumst við niður og áttum okkur á því hvaða mál við eigum að fara að ræða fram í júlí eins og hæstv. forsætisráðherra segir. Hvaða mál eru væntanleg? Þetta er sérkennilegt núna, það eiga að vera nokkrir dagar eftir af starfsáætlun og enn þá hafa (Forseti hringir.) þingflokksformenn eða formenn ekkert sest niður til að (Forseti hringir.) átta sig á því hver staðan er, hvað sé aðkallandi, hvað sé að koma og hverju við þurfum að ljúka.