144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[13:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Enn og aftur stöndum við frammi fyrir þessu, ekki bara á þessu þingi, heldur svo oft áður. Ég legg til að við förum að einbeita okkur að því að haga fundarstjórn þannig að það sé sátt um að minnsta kosti dagskrána. Það er fráleitt hvað það er mikið ósætti um þetta, það á alveg að vera hægt að greiða úr þessu. Það eru margar leiðir til þess sem ég hef nefnt áður, m.a. að þjóðin öðlist málskotsrétt og geti haft smáhemil á hinu háa Alþingi. Eins er að minni hlutinn fái málskotsrétt og geti þá knúið mál í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar ósættið hér er of mikið til að við getum unnið vinnuna okkar. Svo er margt fleira sem mætti taka til, láta þingmál lifa milli þinga o.s.frv.

Það er ótækt að ár eftir ár og núna dag eftir dag á þessu þingi séum við að karpa um dagskrána. Um svo lítið ætti að vera sátt.