144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þegar við skildum í þinginu á föstudaginn og lukum umræðu á þeim degi um rammann reiknaði ég frekar með að helgin yrði notuð af stjórnarmeirihlutanum til að forgangsraða í vinnu sinni. Þetta reiðileysi hér er orðið áberandi mikið og alvarlegt, ekki bara fyrir okkur sem vinnum hérna, heldur líka fólkið úti í þjóðfélaginu sem treystir á að ákveðin mál séu afgreidd fyrir þinglok, bæði sem snerta hugsanlega aðkomu að kjarasamningum og líka húsnæðismál sem geta orðið hluti af þeirri niðurstöðu. Það er ekki hægt að halda svona áfram. Ef þingmenn meiri hlutans brenna fyrir því að troða inn þessari breytingu á rammaáætlun og þeirri vinnu sem er búin að vera í fjölda ára og reyna að eyðileggja hana verða þeir líka (Forseti hringir.) að gera sér grein fyrir því að það verður tekið á móti þeirri umræðu. Það verður ekki látið viðgangast óátalið.