144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú upplifum við áfram þennan sirkus í málþófi sem stjórnarandstaðan stendur fyrir. Hér er kvartað yfir reiðileysi á stjórnarheimilinu og stefnuleysi forseta um það hvaða mál eru á dagskrá. Ég veit ekki hvort hv. þingmenn minni hlutans gera sér ekki grein fyrir því að það stendur til að ljúka umræðu um rammaáætlun. Á meðan þeir halda áfram með þeim hætti sem þeir hafa gert, að tala jafnvel meira um þetta mál og tengd mál og svo aftur alveg óskyld mál undir liðnum um fundarstjórn forseta þar sem ræðutími er jafnvel lengri en um málið sjálft, miðar okkur augljóslega ekkert. Það er í höndum minni hlutans að fara fram með þeim hætti og koma í veg fyrir að lýðræðislegur meiri hluti í þinginu geti síðan tekið þetta mál til endanlegrar afgreiðslu og borið það undir þingheim. Það verður ekki gert öðruvísi en að þessu máli ljúki með þeirri (Forseti hringir.) niðurstöðu sem lagt er upp með hér. Um það er breið og góð samstaða og frá því verður ekki hvikað þannig að við skulum bara hefja störf og málefnalega umræðu um málið.