144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:03]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég lýsi furðu minni á þessari dagskrá hér í dag. Ég hefði haldið að ástandið í þjóðfélaginu væri þannig að menn ættu að setja öll mál til hliðar og einbeita sér að því sem við blasir. Verkföll tugþúsunda Íslendinga með gríðarlegum kostnaði, ótrúlegum fórnarkostnaði fyrir samfélagið allt, hafa lamandi áhrif og stefna ótal fyrirtækjum í gjaldþrot. Ég gæti haldið því fram að við stæðum frammi fyrir þjóðarvá. Það er furðulegt af ríkisstjórninni að ákveða að setja þetta mál á dagskrá dag eftir dag.

Ég lýsi líka undrun minni á því að hv. þm. Jón Gunnarsson sé eftir aðeins nokkurra daga umræðu orðinn svona óþreyjufullur og kvartsár yfir því að menn séu að ræða þetta mál sem hann gerði jafn stórkostlegar breytingar á og (Forseti hringir.) raun ber vitni. Það er margt undarlegt á seyði hér í dag.