144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Maður sér það á fréttum, eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson er að fara yfir hér, að ekki veitir af því að fara mjög vandlega yfir þetta mál og greinilega enn betur en gert hefur verið. Þegar forsætisráðherra heldur því fram að það sé liður í að liðka fyrir kjaraviðræðum að koma breytingum á rammaáætlun í gegn þá fer hann einfaldlega með rangt mál. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson nefndi hér umsögn ASÍ, þar sem ekki er kallað eftir þessu, þvert á móti, þar segir að verkefnisstjórnin eigi að afgreiða þetta.

Síðan má líka benda hæstv. forsætisráðherra og þingmönnum stjórnarliðsins hér á umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar, ferðaþjónustunnar sem hér er hampað nánast á hverjum einasta degi fyrir það hversu öflugur vöxturinn er þar, hversu öflug þessi grein er orðin, en það á ekkert að hlusta á hana í þessu máli. Er hún ekki hluti af þessum vinnumarkaði? Er hún ekki hluti af íslensku atvinnulífi?

Virðulegi forseti. Hér er farið með rangt mál. Það er augljóst að menn vita ekkert hvað þeir eru að tala um, um hvað þessi umræða snýst. (Forseti hringir.) Þeir þurfa að sitja hér í salnum og hlýða á það sem fjallað er um og kynna sér umsagnir um málið.