144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Enn heldur stjórnarandstaðan áfram að ráðast á hæstv. forsætisráðherra og notar til þess ræðustól þingsins, en það er ekki nýtt. En maður hélt kannski að það mundi draga eitthvað úr því svona miðað við umræður undanfarnar vikur.

Það er alveg ótrúlegt að stjórnarandstaðan skuli koma hér fram og tala og tala í þessum dagskrárlið og hleypa ekki rammaáætlun á dagskrá þingsins, þessu máli sem þarf til að snúa til baka frá ákvörðun síðustu ríkisstjórnar. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir talaði í síðustu viku um frekjustjórnmál.

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan er að sýna hér frekjustjórnmál í dag eins og alla síðustu daga. Mig langar jafnframt að benda á hvílík hræsni felst í þessum orðum stjórnarandstöðunnar og því að hleypa þessu máli ekki á dagskrá, því að fyrir þinginu liggur tillaga til þingsályktunar frá öllum þingmönnum Bjartrar framtíðar sem lýtur að því að hrinda eigi án tafar í framkvæmd tillögum ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu. (Forseti hringir.) Hvar á að fá orkuna, virðulegi forseti? Loftkastalar eru þetta.