144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ekki komin fram samgönguáætlun, það er ekki komin fram þingsályktunartillaga um veiðiheimildir í pottum, það eru ekki komin fram, að sögn, tvö stór frumvörp um húsnæðismál, milljarðamál. Það eru ekki komin fram, að sögn, tvö mál um afnám gjaldeyrishafta. Sem sagt, að minnsta kosti sex stór mál sem ríkisstjórnin hefur boðað eða hún á lögum samkvæmt að leggja fyrir þingið. Þau sjást hvergi.

Vinnumarkaðurinn logar í deilum, ríkisstjórnin er í tætlum og örfáir dagar eftir af starfstíma Alþingis. Samt hafa engin samtöl átt sér stað að frumkvæði forustumanna stjórnarflokkanna við stjórnarandstöðuna, ekki einu sinni símtöl, og væntanlega ekki við forseta heldur, samanber það hvernig hann talar hér um að starfsáætlun haldi, sem ég er auðvitað sammála.

Virðulegur forseti. Þetta gengur ekki, svona samskipti við ríkisstjórn getur þingið ekki látið bjóða sér þannig að við tökum þá til okkar ráða, setjum út af dagskrá umdeild mál eins og það sem er hér næst á eftir (Forseti hringir.) og afgreiðum þau 20–30 mál sem sæmilegur friður er um og förum svo heim. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)