144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ef rammaáætlun er allt í einu orðin svona stór liður í að leysa kjarasamninga vil ég aðeins benda meiri hlutanum á það að ef þessi tillaga verður samþykkt með breytingartillögum óttast ég að til dæmis virkjunarhugmyndir í Hvammsvirkjun fari á bið vegna málaferla sem verða studd áliti umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um að Alþingi geti ekki gert breytingartillögu eins og meiri hlutinn hefur hér gert. Þar með verður framkvæmdin við Hvammsvirkjun, sem ég held að töluvert stór meiri hluti hér á Alþingi vilji samþykkja, líka sett í uppnám. Þess vegna er það skjótvirkasta leiðin til að liðka fyrir kjarasamningum, ef forsætisráðherra hefur rétt fyrir sér, að taka breytingartillöguna til baka og ganga til atkvæða um Hvammsvirkjun og þá gæti eitthvað verið í ferðatösku hæstv. forsætisráðherra til aðila vinnumarkaðarins um að ganga frá samningum, sem ég dreg reyndar svolítið í efa (Forseti hringir.) að sé eins og hæstv. forsætisráðherra hefur sett fram nú í lokin.